Rennslismælir frá Diehl Metering sendir í gegnum símkerfi boð um hitastig, rennsli og þrýsting á vatni í inntaki húsa. Eftir innleiðingu kerfisins þurfa húseigendur ekki sjálfir að ábyrgjast aflestur mæla.

Veitur hyggjast snjallvæða mælakerfi raf,- hita- og vatnsveitu

Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf,- hita- og vatnsveitu í húsum. Samningurinn hljóðar upp á um tvo milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland. Veitur áforma svo að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi.

Þessari væntanlegu breytingu fylgir ýmis ávinningur. Meðal annars geta viðskiptavinir Veitna fengið mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn. Þetta getur leitt til þess að t.d. leynd bilun í inntakskerfi hitaveitu komi fyrr upp en við núverandi fyrirkomulag þar sem húseigendur ábyrgjast reglulegan aflestur og skráningu notkunar á heimilum sínum. Fjölmörg dæmi eru um að vegna bilunar á t.d. einstreymislokum í hitaveitu hafi orðið til himinháir bakreikningar í þeim tilfellum sem álestur mælanna hefur verið stopull og bilunin því seint uppgötvast. Eftir innleiðingu þessa nýja kerfis munu viðskiptavinir Veitna fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á „Mínum síðum“ á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt.

Samhliða þessu munu Veitur fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði. „Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti,“ segir í tilkynningu frá Veitum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir