Vilja leyfa veiðar á gæs og álft utan hefðbundins veiðitíma

Þrjá þingkonur; þær Þórunn Egilsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir, hafa á Alþingi lagt fram tillögu til þingsályktunar sem gerir ráð fyrir að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Verði tillagan samþykkt yrði umhverfis- og auðlindaráðherra falið að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á eftirfarandi tegundum fugla, utan hefðbundins veiðitíma þeirra; grágæs, heiðagæs og helsingja á kornökrum og túnum frá 15. mars til 15. júní og á álft á kornökrum frá 1. maí til 1. október. Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs fugla á tún og kornakra. Ráðherra geri jafnframt áætlun um að tryggja vernd stofnanna. Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að álftir, grágæsir, heiðagæsir og helsingjar valdi miklu tjóni á túnum og kornökrum. Þörf sé á að finna leiðir fyrir bændur til þess að stemma stigu við ágangi álfta og gæsa.

Fuglavernd hefur þegar mótmælt tillögunni harðlega. „Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.