Ríkisstjórnin samþykkir að setja lög á verkfall flugvirkja

Dómsmálaráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frumvarps sem lagt verður fyrir Alþingi síðar í dag sem bindur enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Þar með styttist sá tími sem landsmenn verða án starfshæfrar björgunarþyrlu. Vegna viðhaldsleysis hefur engin þyrla verið tiltæk síðan í fyrrakvöld. Í yfirlýsingu frá Áslaugu Örnu Sigurbjörndóttur dómsmálaráðherra vegna málsins kemur fram að gerðardómi verði falið að ákveða kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hafi samningar ekki tekist fyrir 4. janúar næstkomandi. Þá er gerðardómi ætlað að taka til meðferðar útfærslu á tengingu kjarasamnings flugvirkja við aðrar sambærilegar starfsstéttir á almennum vinnumarkaði.

Í yfirlýsingunni segir að verkfall flugvirkja hjá Gæslunni hafi stefnt heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir almenning í mikla tvísýnu. „Staðan er óviðunandi og ég tel ekki rétt að ein stétt hjá Landhelgisgæslunni geti haft þessi gífurlegu áhrif á öryggismál þjóðarinnar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að öðrum mikilvægum starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að fara í verkfall með vísan til almannahagsmuna,“ segir í færslu ráðherra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Fjölgar í einangrun

Lítilsháttar hefur nú fjölgað þeim sem eru í einangrun með Covid-19 á Vesturlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Vesturlandi nú... Lesa meira