Bræðurnir Styrmir Már og Elfar Már Ólafssynir reka Bókhalds- og rekstrarþjónustuna.

Bókhalds- og rekstrarþjónustan flutt að Borgarbraut 61

Bókhalds- og rekstrarþjónustan sf. í Borgarnesi hefur verið flutt í nýtt húsnæði við Borgarbraut 61, í rýmið þar sem Tækniborg var síðast. Það eru bræðurnir Styrmir Már og Elfar Már Ólafssynir sem reka Bókhalds- og rekstrarþjónustuna en þeir tóku við fyrirtækinu af föður sínum á síðasta ári. „Við þurftum orðið meira pláss. Það fylgir þessu starfi mikill pappír og það var allt orðið fullt af möppum hjá okkur og orðið tímabært að flytja,“ segir Styrmir í samtali við Skessuhorn. „Svo langaði okkur bara að breyta til,“ bætir hann við.

Aðspurður segir Stymir alltaf nóg að gera hjá þeim bræðrum og fleiri verkefni bætast reglulega við. „Það eru alltaf að tínast inn ný og fjölbreytt verkefni, sem er skemmtilegt. Þetta nýja húsnæði er mikið betra fyrir okkur en við erum komnir með um 30 fermetra í viðbót. Við viljum helst ekki að möppurnar sjáist þegar fólk kemur inn til okkar og þannig getum við núna haft það,“ segir Styrmir. „Við erum með smá móttöku til að geta tekið á móti viðskiptavinum en við eigum eftir að koma okkur betur fyrir. Það litast allt af þessari veiru núna og við erum til dæmis ekki með neina kaffiaðstöðu og getum vissulega ekki haft neina formlega opnun. En þetta er mikið betri aðstaða fyrir okkur,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir