Vonskuveður framundan

Í nótt var hvöss suðaustanátt og mikil úrkoma á öllu sunnan- og vestanverðu landinu. Veðurspá fyrir stóran hluta landsins gerir ráð fyrir vonskuveðri í dag, fimmtudag. Víðast hvar verður hvasst af suðvestri, 15-25 m/s. Rigning í fyrstu en hvöss og dimm él upp úr hádegi.

Í viðvörun frá veðurfræðingi segir að vaxandi éljagangur verði um landið vestanvert, einnig snjór á láglendi. „Vindur slær í um og yfir 20 m/s í hryðjunum síðdegis og í kvöld. Það verður kóf og lélegt skyggni, einkum á fjallvegum. Hvöss él áfram í fyrramálið.“

Appelsínugul viðvörun er í gildi vegna veðurs fyrir Breiðafjarðarsvæði og gildir hún til kl. 23:00 í kvöld. Gul viðvörun er í gildi fyrir Faxaflóasvæði en hún hækkar í appelsínugula kl. 13:00. Veðurspáin gerir ráð fyrir suðaustan 18-23 m/s og talsverðri rigningu. Hvessir í suðvestan 18-25 eftir hádegi. Hiti kringum frostmark.

Samkvæmt Vegagerðinni er greiðfært í Borgarfirði, á Mýrum og á sunnanverðu Snæfellsnesi en annars hálka eða hálkublettir á vegum. Hálka er á fjallvegum og víðast hvar hálkublettir eða greiðfært á láglendi. Vegurinn um Bröttubrekku er opinn aftur eftir stutta lokun. Mjög lítið skyggni verður í éljum og segir Veðurstofa akstursskilyrði vera varasöm á meðan viðvarirnar eru í gildi.

Á morgun minnkar suðvestanáttin og verður á bilinu 13 til 18 metrar á sekúndu. Áfram má búast við éljagangi, einkum um sunnanvert landið, og hiti verður í kringum frostmark. Svipaða sögu er að segja um laugardag en talið er að vindur verði hægari eftir hádegi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir