Viðgerðir á kirkjunni aðkallandi

Árlegur jólamarkaður til styrktar viðhaldssjóði Innra-Hólmskirkju verður í félagsheimilinu Miðgarði um næstu helgi. „Við í sóknarnefnd Innra-Hólmskirkju höfum á síðustu árum staðið fyrir fjáröflunum til styrktar viðhaldssjóði kirkjunnar. Við ætlum með þessu að klára það verkefni sem er verulega áríðandi og aðkallandi að fara í, sem er viðgerð á þaki og á ytra byrði kirkjunnar,” segir Ragnheiður Guðmundsdóttir, djákni og formaður sóknarnefndar, í samtali við Skessuhorn. En með henni í nefndinni eru þær Ingileif Daníelsdóttir og Lára Ottesen. Innri-Hólmskirkja á sér merka sögu og er einn elsti kirkjustaður á landinu. Kirkjan sem nú stendur var vígð árið 1892 og friðuð 1. janúar 1990.

„Um næstu helgi verður hinn árlegi jólamarkaður okkar að Miðgarði til styrktar viðhaldssjóðnum. Þar verður margt áhugavert til sölu. Það verður fjölbreytt úrval af handverki, sultur, kökur, kleinur og broddur svo eitthvað sé nefnt. Markaðurinn verður næstkomandi laugardag og sunnudag frá klukkan 12 til 18 báða dagana.“

Ragnheiður segir að fleiri styrktarviðburðir verði haldnir, vonandi fljótlega á næsta ári, þegar samkomubanni verður aflétt vegna Covid faraldursins. Þrennir tónleikar voru haldnir í kirkjunni á síðasta ári sem Sveinn Arnar Sæmundsson organisti skipulagði og vonandi verða þeir fleiri á næstu árum. Hún segir að jafnaði séu messur einu sinni í mánuði í Innra-Hólmskirkju og auk þess messur um jól og páska.

„Auk þessara fjáraflana höfum við sótt um styrki í Jöfnunarsjóð sókna, sem ekki hefur skilað sér enn, en vonandi kemur að því,“ segir Ragnheiður. Nú er verið að gera mat á því hvort hægt verður að gera við ytra byrði kirkjunnar í stað þess að brjóta það af. Það mun segja mikið til um framhald verksins.“

Fyrir áhugasama sem vilja leggja viðhaldssjóðnum lið þá er hægt að leggja inn á reikning hans sem er: 0326-22-1873 kt. 660169-5129

Líkar þetta

Fleiri fréttir