Þrír í sóttkví af þeim ellefu sem greindust með veiruna í gær

Ellefu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær samkvæmt uppfærðum tölum á covid.is og þar af voru þrír í sóttkví. 166 eru nú í einangrun á landinu vegna veirunnar og 446 í sóttkví. 45 manns liggja á sjúkrahúsi vegna Covid og þar af eru tveir á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita er nú 32,5.

Enn eru fimm í einangrun á Vesturlandi vegna kórónuveirunnar, tveir á Akranesi, tveir í Grundarfirði og einn í Borgarnesi. Þá hefur fjölgað um einn í sóttkví og eru þeir nú sjö, fjórir á Akranesi, einn í Borgarnesi, einn í Ólafsvík og einn í Stykkishólmi.

Á fundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bylgjuna vera á niðurleið en þó sagðist hann hafa áhyggjur af því að smitstuðullinn sé að snúast við og fara að hækka á ný. Hann sagði það áhyggjuefni hversu margir væru að greinast utan sóttkvíar og hvatti hann alla sem hafi minnstu einkenni að fara í sýnatöku. Samfélagssmitum sem erfitt er að rekja hefur fjölgað og eru smitin einna helst rakin til verslanamiðstöðva og veisluhalds. Þá sagðist hann kannski þurfa að endurskoða þær tillögur sem hann hefur sent ráðherra um takmarkanir eftir 2. desember nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir