Lax reynir uppgöngu í Glanna í Norðurá.

Ráðherra vill styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Miða þær einkum að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp sem stefndi að sömu markmiðum, en það varð ekki að lögum. Unnið hefur verið með þær athugasemdir og tillögur sem fram komu við meðferð málsins á Alþingi og er frumvarpið afrakstur þeirrar vinnu.

Með frumvarpinu er lagt til að komi fram tillaga á félagsfundi veiðifélags um að ráðstafa rétti til stangveiði til félagsmanns í veiðifélaginu eða til aðila sem tengjast honum þarf samþykki hið minnsta 2/3 hluta atkvæða. Þetta gildir þó aðeins ef hlutaðeigandi félagsmaður eða aðilar sem tengjast honum fara að lágmarki með 30% atkvæða. Þá er einnig lagt til að sama aukinn meirihluta þurfi til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hafi á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingar séu óverulegar.

Þá er með frumvarpinu lagðar til fernar aðrar breytingar. Í fyrsta lagi breytingar sem skerpa á úrræðum Fiskistofu, m.a. vegna ólögmætra framkvæmda. Í öðru lagi breytingar sem auðvelda sameigendum að taka þátt í atkvæðagreiðslum innan veiðifélaga. Í þriðja lagi breyting á kostnaðarfyrirkomulagi vegna starfa matsnefndar skv. VII. kafla laganna. Loks í fjórða lagi breyting á skipan matsnefndar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir