Brásól Brella og furðuævintýrin hennar

Bókin Brásól Brella: Vættir, vargar og vampírur, eftir Borgnesinginn Ásrúnu Magnúsdóttur kom nýverið út. Þetta er fimmta barnabókin sem Ásrún gefur út en þessi er nokkuð frábrugðin þeim fyrri. „Í hinum bókunum mínum sótti ég innblástur í það sem ég þekki í raunheimum en þessi bók er furðuævintýrasaga út í gegn,“ segir Ásrún. Bókin fjallar um unga stúlku sem heitir Brásól Brella sem uppgötvar að hún sé norn þegar hún breytir pabba sínum óvart í puntsvín. „Hver hefur nú ekki lent í því,“ spyr Ásrún og hlær. „En svo vandast málin fyrir hana Brásól Brellu því hún er svo nýbyrjuð að galdra og kann ekki að breyta pabba sínum til baka. Hún þarf því að finna leið til þess og dettur fyrst í hug að leita til þekkts og voldugs galdramanns sem býr handan hættulegs skógar. Hún þarf því að fara í gegnum skóginn og hittir þar allskonar hættulegar furðuverur á leið sinni og lendir í ýmsum ævintýrum,“ segir Ásrún.

Ásrún segist leggja áherslu á að vitna til skemmtilegra gullmola úr gömlum klassískum ævintýrum sem fólk þekkir til. „Ég vil reyna að halda í klassískar ævintýrahefðir, hafa óskir, gátur, töfra og slíkt í ævintýrunum mínum og þar má einnig finna gullmola sem ætti að kannast við, til dæmis vísanir í Hans og Grétu, Grísina þrjá og Gullbrá,“ segir Ásrún. Aðspurð segir hún bókina henta fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Bókin er gefin út af Bókabeitunni og er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir