Þórgeir bóndi á Arnarstapa og Klemens Sigurðsson skipstjóri virða fyrir sér aflann. Ljósm. af.

Undraðist að humar veiddist nánast uppí kartöflugarðinum hans

Tilraunaveiðar með humargildrur á Ingu P SH ganga vonum framar á Breiðafirði. Auðsjáanlega er humar að finna víða á svæðinu á miðunum við Snæfellsnes. Fyrst voru gildrurnar lagðar ellefu mílur vestur að Öndverðarnesi og var afli með ágætum en veður hamlagði þó veiðum. Í síðustu viku voru gildrurnar svo færðar á svokallað Jökuldýpi sem er þekkt humarsvæði, en áður fyrr á árum voru humartogskip þar að veiðum. Ein trossa var þó lögð í Faxaflóann, 12 mílur suður af Arnarstapa, þar sem ekki hefur verið reynt að veiða áður. Kom það mönnum á óvart að þar var góður afli af vænum humri.

Að þessu sinni var aflanum landað á Arnarstapa þar sem stutt var til hafnar frá veiðislóð. Að sögn Guðmundar Ívarssonar hafnarvarðar á Stapanum er þetta í fyrsta skipti sem humri er landað þar. Þórgeir Högnason bóndi á Arnarstapa átti ekki orð yfir því að humar fengist rétt við kartöflugarðinn sinn og var heldur betur undrandi yfir að sjá svona fallegan humar. Á meðfylgjandi mynd er hann að virða aflann fyrir sér ásamt Klemens Sigurðssyni skipstjóra á Ingu P SH, en aflinn í þessum róðri var 120 kíló.

Líkar þetta

Fleiri fréttir