Ráðuneytið hafnar beiðni um blóðskilunarmeðferð á Akranesi

Bæjarstjórn Akraness skoraði í mars á heilbrigðisyfirvöld að setja upp blóðskilunarvél á sjúkrahúsinu á Akranesi. Í áskoruninni var bent á að sjúklingar á Akranesi sem þurfa á blóðskilun að halda eru háðir aðstoð því meðferð af þessu tagi getur tekið allt að 6 til 7 klukkustundir í senn í nokkur skipti í viku hverri. Jafnframt að eðli málsins samkvæmt eigi viðkomandi sjúklingar ekki kost á að nýta almenningssamgöngur né að keyra eigin bíl.

Jafnframt sagði í áskoruninni frá því í mars: „Allar forsendur eru til staðar við HVE á Akranesi til að taka upp þessa þjónustu og sem kunnugt er býr stofnunin yfir miklum mannauði og vilja og hefur veitt öfluga heilbrigðisþjónustu á öllu Vesturlandi. HVE er tilbúið að taka við auknum verkefnum og áskorunum eins og raun ber vitni með tilvísun í samþykkt heilbrigðisráðherra frá því í október 2019 um að gera sjúkrahúsið á Akranesi að miðstöð liðskiptaaðgerða á mjöðmum og hnjám.“

Nú hefur heilbrigðisráðuneytið svarað erindi Akraneskaupstaðar og skemmst er frá því að segja að erindinu er synjað. Í svarinu segir að ráðuneytið hafi skoðað málið og m.a. fengið álit Landspítala sem hefur yfirumsjón og yfirsýn með allri blóðskilunarmeðferð sem veitt er á landsvísu. Helstu rökin fyrir synjunni eru að skilunareiningar séu á Neskaupsstað, á Selfossi, á Akureyri og á Ísafirði vegna ferðalengdar sjúklings og erfiðrar færðar um fjallvegi og tíðra lokana yfir vetrartímann. Slíkt eigi ekki við um Akranes. Það sé því mat ráðuneytisins í ljósi vegalenda og ástands vega sem um ræðir að ekki sé tilefni til að setja á fót blóðskilunareiningu við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Í fundargerð Velferðar- og mannréttindaráðs Akraneskaupstaðar frá 18. nóvember, þar sem málið var tekið fyrir, er niðurstaðan hörmuð og sviðsstjóra falið að vinna málið áfram í samráði við bæjarstjóra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir