Óskar Sigvaldason formaður Félags vinnuvélaeigenda og framkvæmdastjóri Borgarverks sýnir hér nýja skírteinið í símanum sínum.

Stafræn vinnuvélaskírteini tekin í notkun

Ný stafræn vinnuvélaskírteini voru tekin í gagnið í vikunni. Sömuleiðis stafræn ADR-réttindi. Þessi skírteini eru fyrir alla sem eru með íslensk ADR- og/eða vinnuvélaréttindi og eiga snjallsíma, en yfir 35.000 manns eru með gild vinnuvélaréttindi hér á landi. Skírteinin sanna fyrir lögreglu að stjórnandi ökutækis sé með gild ADR- eða vinnuvélaréttindi. Í véla- og fyrirtækjaeftirliti Vinnueftirlitsins er jafnframt óskað eftir því að umræddum skírteinum sé framvísað, en á þeim koma fram sömu upplýsingar og á hefðbundnum ADR- og vinnuvélaskírteinum. Skírteinin, sem gilda aðeins á Íslandi, eru fyrir notendur Android og iOS-stýrikerfa en eingöngu er hægt að setja þau upp á einu símtæki í einu. Ef þau er sett upp í öðrum síma afvirkjast þau í tækinu sem þau voru í áður.

Skírteinin virka eins og stafrænu ökuskírteinin sem tekin voru í gagnið 1. júlí síðastliðinn og hafa bæði framhlið og bakhlið.  Á framhlið vinnuvélaskírteinanna er að finna persónuupplýsingar skírteinishafa og útgáfudag en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með og gildistími þeirra. Á framhlið ADR-réttindanna, sem eru fyrir þá sem flytja hættulegan farm, er að finna sömu upplýsingar og á vinnuvélaskírteinunum ásamt gildistíma en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með.

Líkar þetta

Fleiri fréttir