Auka innlausnardagur fyrir greiðslumark í sauðfé

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að haldinn verður auka innlausnarmarkaður með greiðslumark í sauðfé nú í desember. Markaðurinn er haldinn að tillögu Landssamtaka sauðfjárbænda um að auka greiðslumark á markaði fyrir sauðfjárbændur. Aðgerðin miðar að því að jafna stöðu bænda innan kerfisins þar sem greiðslumarki verður beint til hópa sem framleiða með minnstum opinberum stuðningi.

Á markaðnum verður boðið til sölu greiðslumark sem innleyst var á árunum 2017 og 2018, samtals 4.757 ærgildi, auk þess sem heimilt verður að leggja fram sölutilboð með sama hætti og venjulega. Innlausnarverð/söluverð er núvirt andvirði beingreiðslna næstu tveggja almanaksára, 12.764 kr. á ærgildi. Forgangshópar eru tveir samkvæmt reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt. Forgang að 60% af því sem er til úthlutunar eiga þeir framleiðendur sem eiga 200 kindur eða fleiri á haustskýrslu 2019 og hafa ásetningshlutfallið 1,6 eða hærra. Forgang að því sem þá er eftir hafa þeir framleiðendur sem eiga 100 kindur eða fleiri og hafa ásetningshlutfallið 1,0 eða hærra. Það greiðslumark sem ekki er úthlutað til framleiðenda í forgangshópum skal boðið öðrum umsækjendum.

Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja veðbókarvottorð ásamt staðfestingu á eignarhaldi að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu. Kaupandi greiðslumarks nýtir greiðslumark frá og með 1. janúar 2021. Tilboðum um kaup og sölu greiðslumarks skal skila rafrænt á afurd.is. Opnað verður fyrir kaup- og sölutilboð í Afurð á morgun, 25. nóvember. Tilboðsfrestur rennur út á miðnætti 3. desember nk. Greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki er til 10. desember 2020.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.