Þrír greindust með veiruna í gær

Þrír greindust með kórónuveiruna hér á landi í gær samkvæmt uppfærðum tölum á Covid.is, og þar af voru tveir í sóttkví. 220 eru nú í sóttkví á landinu, sem er fjölgun frá því í gær þegar 205 voru í sóttkví, og 198 eru í einangrun en í gær voru þeir 205. 45 liggja á sjúkrahúsi og þar af eru tveir á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita er nú 40,1 en var 43,6 í gær.

Átta eru nú í einangrun á Vesturlandi; sjö á Akranesi og einn í Borgarnesi. Níu eru í sóttkví; sjö á Akranesi, einn í Borgarnesi og einn í Ólafsvík.

Á upplýsingafundi Almannavarna ríkislögreglustjóra í dag minnti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á að þeir sem eru nú erlendis, en ætli að verja jólunum á Íslandi, að síðasti dagurinn til að koma heim til landsins er 18. desember, ef fólk vill ekki vera í sóttkví um jólin. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að flestir þeir sem hafa greinst með veiruna síðustu daga hafi verið í sóttkví og sagði hann bylgjuna vera komna vel niður. Hann sagði mikilvægt að fólk haldi áfram að gæta vel að sóttvörnum til að veiran nái sér ekki á skrið aftur.

Þær takmarkanir sem eru nú í gildi í samfélaginu gilda til og með 1. desember og er von á tillögum Þórólfs um áframhaldandi aðgerðir í kringum næstu helgi. Sagðist hann ætla að leggja til að takmarkanir sem taki gildi 2. desember gildi út árið. Nú er unnið að leiðbeiningum um sýkingarvarnir um jól og áramót og verða þær birtar síðar í þessari viku.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, var einnig á fundinum og sagði hann stöðu spítalans fara batnandi. Hann sagði að byrjað hafi verið á að framkvæma valkvæðar aðgerðir í síðustu viku og að farið verði í þyngri aðgerðir núna í vikunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir