
Nýtt fyrirkomulag krabbameinsskimana
Breytingar verða á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um næstu áramót. Landspítalinn í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri tekur þá að sér framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í brjóstum og heilsugæslan um allt land framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í leghálsi. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur annast þetta verkefni um áratuga skeið og unnið mikilvægt brautryðjandastarf í baráttunni við krabbamein hér á landi. „Markmið breytinganna er að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Embætti landlæknis mun fara með stjórn hópleitarinnar og bera ábyrgð á henni, sinna gæðaeftirliti og halda skimunarskrá,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.