
Kiwanisklúbburinn Þyrill styrkir Mæðrastyrksnefnd
Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranes færði á föstudaginn Mæðrastyrksnefnd Akraness hálfa milljón króna að gjöf. Stefán Lárus Pálsson, forseti Þyrils, sagði í ávarpi sínu að klúbburinn hefði í mörg ár styrkt Mæðrastyrksnefnd og hygðist gera það áfram. Hefði verið ákveðið að hafa gjöfina óvenju rausnarlega í ár.
Það voru María Ólafsdóttir og Svanborg Liljan Eyþórsdóttir sem veittu gjöfinni viðtöku fyrir hönd Mæðrastyrksnefndarinnar. Í máli Maríu Ólafsdóttur kom fram að gjöfin væri afar rausnarleg og kæmi sér mjög vel, sérstaklega núna þegar þörfin er óvenju mikil. Þess má geta að jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar Akraness fer fram 15. desember næstkomandi eins og greint var frá í frétt hér á vefnum sl. föstudag.