Elmar felgubóndi með hluta bústofnsins. Ljósm. frg

Sérhæfir sig í innflutningi á jeppafelgum

Búskaparhættir á Íslandi breytast með ógnarhraða. Til marks um það má nefna að í fjósinu á Leirá í Leirársveit eru ekki lengur kýr en þar er nú búið með jeppafelgur í hundraðavís. Núverandi ábúendur á Leirá eru hjónin Anna Rósa Guðmundsdóttir og Elmar Snorrason. Þau hafa búið á Leirá undanfarin sjö ár. Anna Rósa starfar sem blaðamaður og Elmar sem húsasmiður. Undanfarið hefur Elmar unnið við ýmis verk í Húsafelli. Hann kom m.a. að byggingu Giljabaðanna og undanfarið hefur hann unnið við lagningu ljósleiðara í sumarhúsabyggðinni í Húsafelli.

Elmar er mikill grúskari og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu tengdu bílum og öðrum vélknúnum tækjum. Í janúar 2018 var félagi hans að leita að felgum og Elmar var að aðstoða hann með að leita á netinu. Félagann vantaði jeppafelgur, 14 tommu breiðar, en lítið framboð var af slíkum felgum hérlendis nema þá sérsmíðuðum. Elmar leitaði lengi og víða á internetinu og sendi tölvupósta á ýmsa aðila. Lítið var um svör og hann í raun var hann hættur að hugsa um þetta. Það var svo 1. mars sama ár sem honum barst tölvupóstur frá aðila þar sem honum er tjáð að nú geti viðkomandi framleitt felgur í þeirri stærð sem leitað var að. Elmar ákvað að fara varlega í upphafi og pantaði þrjá umganga eða tólf felgum til prufu. Elmar orðar það þannig að; „ég vildi vita hvort þetta væri nokkuð búið til úr bjórdósum!“ Þegar prufusendingin kom reyndist um miklar gæðafelgur að ræða. Í kjölfarið náði hann að smala saman nokkrum jeppakörlum á síðunni jeppaspjall.is og gerð var pöntun fyrir alls 168 felgum. Pöntunin var gerð í nafni Elmars sem sá um að halda utanum pöntunina fyrir kaupendur sem höfðu treyst honum fyrir peningunum sínum. Þegar felgurnar svo bárust kaupendum var mikil ánægja meðal þeirra með kaupin. Elmar afréð í framhaldi af þessu að hefja fyrir alvöru innflutning á felgum frá þessum framleiðanda en í stað þess að vera eingöngu með sérpantanir þá vildi hann geta haft lager af felgum svo hægt væri að afgreiða þær með skemmri tíma en sérpöntun tók og í framhaldinu var gerð pöntun með 300 felgum og vefverslunin Jeppafelgur.is varð til.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir