Forsíða hrútaskrárinnar, en hana prýða hrútar á Gaul í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ljósm. Halla Eygló Sveinsdóttir.

Hrútaskrá sæðingastöðvanna er komin út á rafrænu formi

Óhætt er að segja að eitt mest lesna blað hvers árs sé Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna. Blaðið fyrir 2020-21 er nú komin úr á rafrænu formi og væntanlegt úr prentun undir lok næstu viku. „Skráin mun án efa ylja áhugamönnum um sauðfjárrækt um hjartarætur og við vonum að sauðfjárræktendur og aðrir áhugamenn um sauðfjárrækt njóti lesningarinnar þar til prentaða útgáfan kemur út í lok næstu viku,“ segir í tilkynningu á vef RML.

Skráin er 52 síður að stærð, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um 47 hrúta sem notaðir verða til sæðinga í vetur. „Hrútakosturinn er að venju gríðarlega öflugur, blanda af reynsluboltum sæðingastöðvanna og yngri kappa sem hafa nú hafið sinn fyrsta vetur á sæðingastöðvunum. Þá eru aðrir valkostir í boði, svo sem ferhyrndur hrútur og feld- og forystufjárhrútar. Ritstjóri skráarinnar er Guðmundur Jóhannesson en efni skráarinnar er að mestu tekið saman og skrifað af Árna B. Bragasyni, Eyjólfi I. Bjarnasyni, Eyþóri Einarssyni og Lárusi G. Birgissyni. Flestar ljósmyndir í skránni eru teknar af Höllu Eygló Sveinsdóttur en auk hennar tók Torfi Bergsson myndir af hrútum. Rósa Björk Jónsdóttir sá um uppsetningu og umbrot og prentun er í höndum Fjölritunar- og útgáfuþjónustunnar í Borgarnesi. Hér með er þökkum til þessara aðila og fjölmargra annarra er lögðu hönd á plóg komið á framfæri en að baki liggur mikil vinna sem sinna þarf á stuttum tíma. Þá er auglýsendum þakkað sérstaklega þeirra framlag sem gerir þessa útgáfu mögulega í því formi sem hún er,“ segir í kynningu RML á ritinu og því bætt við að vegna heimsplágunnar munu hefðbundnir hrútafundir falla niður þetta árið en þess í stað verður um að ræða vefkynningu sem verður kynnt síðar.

Hér er hægt að skoða Hrútaskrá 2020-2021:

thumbnail of hrutaskra_2020-21_vef

Líkar þetta

Fleiri fréttir