Máttur kvenna og Háskólagátt á ensku í boði á Bifröst

Kóvidfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á skólastarf í landinu. Við Háskólann á Bifröst hefur skólalífið verið í nokkuð föstum skorðum enda byggir skólinn á fjarnámi og allt frá fyrsta degi má segja að hann hafi verið „Kóvíd klár“. Þó þurfti að fresta námskeiðinu Mætti kvenna sem notið hefur mikilla vinsælda síðustu ár. Í Mætti kvenna er mikið lagt upp úr kröftugum vinnuhelgum og því var ákveðið að fresta námskeiðinu fram yfir áramót. Vinnuhelgar eru í upphafi og um miðbik námsins en því lýkur á vormánuðum með formlegri útskrift.

Um er að ræða ellefu vikna nám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja og fer námið að stórum hluta fram gegnum netið. Námskeiðin sem kennd verða í fjarnámi eru upplýsingatækni, bókhald, fjármál, markaðs- og sölutækni og stofnun fyrirtækja og rekstrarform. Ekki eru gerðar sérstakar forkröfur til þeirra sem taka námskeiðið. Næsta námskeið hefst því 25. janúar en því lýkur í byrjun maí.

Opið er fyrir umsóknir á Bifröst til 10. desember fyrir þá sem vilja hefja nám á vorönn. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor á Bifröst, segir að aðsókn að skólanum sé góð og nú sé skólinn í fyrsta sinn að bjóða upp á háskólagátt á ensku. Háskólagátt á ensku er spegilmynd sams konar náms á íslensku, sambærilegt að öðru leyti en því að kennt verður á ensku. Í stað hefðbundinna íslenskuáfanga taka nemendur áfanga í íslensku sem öðru máli og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku- og/eða áfanga í íslensku sem öðru máli.

Nemendur geta lokið náminu á rúmum sex mánuðum eða á tveimur önnum. Kennslan hefst í byrjun janúar og henni lýkur í byrjun ágúst. Námstilhögun er sniðin að átakinu Nám er tækifæri, en markmið þess er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir