Hafa leigt kvóta á fiskveiðiárinu fyrir þrjá milljarða

Frá 1. september til og með 17. nóvember, þegar liðnir eru tveir og hálfur mánuður af fiskveiðiárinu, hafa alls tæp nítján þúsund tonn af veiðiheimildum verið leigð milli útgerða fyrir tæpa 2,9 milljarða króna. Um helmingur viðskiptanna er með veiðiheimildir í þorski, rúmur 1,4 milljarður, en að magni til er þorskur aðeins um 5.700 tonn eða 30% enda langdýrasta tegundin. Heildarúthlutun fiskveiðiheimilda fyrir allt fiskveiðiárið er rétt tæplega 360.000 tonn. Leigðar heimildir á fyrstu tveimur og hálfum mánuði eru því 4,5% af öllum afla ársins. Þetta kemur fram í tölulegum upplýsingum á vef Fiskistofu.

Meðalverð á markaði fyrir þorsk hefur á þessu tímabili verið 247,88 krónur fyrir kílóið en verðið myndast á frjálsum markaði. Þeir sem leigja heimildir og veiða fiskinn greiða til viðbótar veiðigjald sem fyrir þorsk er 10,62 kr. á þessu fiskveiðiári. Alls hefur leigjandinn því greitt að meðaltali kr. 258,5 fyrir hvert kíló af þorski, eða um 1.474 milljónir króna. Af því fékk handhafi heimildanna 1.414 milljónir og ríkið rúmar 60 milljónir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir