Lausar lóðir til úthlutunar samkvæmt vef Akraneskaupstaðar merktar með rauðu.

Tíu lóðir við Sementsreit auglýstar til úthlutunar

Akraneskaupstaður auglýsir í Skessuhorni sem kom út í dag 17 lóðir til úthlutunar. Þar á meðal eru tíu nýjar lóðir sem standa við Suðurgötu, nánar tiltekið við Sementsreitinn, auk tveggja eldri lóða við sömu götu. Þá eru í sömu auglýsingu fjórar lóðir við Asparskóga til úthlutunar, ásamt einni lóð við Akralund. Samkvæmt fundargerð bæjarráðs 15. nóvember síðastliðinn telur bæjarráð ekki þörf á að halda opinn kynningarfund vegna úthlutunar lóðanna heldur fari úthlutun fram með útdrætti sæki fleiri en einn um hverja lóð. Á meðfylgjandi mynd má sjá staðsetningu lóðanna við Suðurgötu.

Húsið Suðurgata 108, sem styrr hefur staðið um í bæjarstjórn hvort skuli selja, er inni á milli þessara nýju auglýstu lóða. Eitt tilboð barst í húsið þegar það var auglýst fyrr á árinu, en því var hafnað þar sem tilboðið stóðst ekki skilyrði um 40 milljóna króna lágmarksverð sem sett hafði verið. Minnihluti bæjarráðs vildi láta rífa húsið en því hafnaði meirihlutinn. Suðurgata 108 hefur því verið auglýst að nýju en ákvæði um lágmarksverð verið tekið út.

Nánari upplýsingar um lóðaúthlutunina má finna í auglýsingu í Skessuhorni auk þess sem bent er á heimasíðu Akraneskaupstaðar, www.akranes.is/nyjarlodir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir