Hefja byggingu nýs skrifstofuhúss á Alþingisreit

Samningur Alþingis við ÞG verktaka um þriðja áfanga byggingar fimm hæða skrifstofuhúss á Alþingisreit var undirritaður í dag. Undir samninginn rituðu Steingrímur J Sigfússon forseti Alþingis og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri fyrir hönd Alþingis og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka. Í þriðja áfanganum felst uppsteypa og fullnaðarfrágangur. Flatarmál aðalbyggingarinnar verður 5.073 m² að viðbættum 1.307 m² bílakjallara og kostnaðaráætlun þessa verkhluta er 3,34 milljarðar króna með virðisaukaskatti. Verktakinn er þegar byrjaður að koma sér fyrir á svæðinu og eru verklok áætluð í lok apríl 2023.

Í byggingunni sem rís að Tjarnargötu 9, á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu, verða skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstaða fyrir þingflokka og starfsfólk þeirra, fundaherbergi fastanefnda, vinnuaðstaða fyrir starfsfólk nefndanna og mötuneyti. Öll þessi aðstaða er nú í leiguhúsnæði. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir