Annir hjá hárskerum eftir að opna mátti aftur

Í morgun var slakað á samkomutakmörkunum vegna Covid-19. Meðal annars máttu hárgreiðslustofur og hárskerar opna að nýju eftir að hafa verið gert að loka 31. október síðastliðinn. Ljóst er að uppsöfnuð eftirspurn er því til staðar. Í Skessuhorni, sem kom út í dag, er meðal annars greint frá því að Pastelbúðin var opnuð í Ólafsvík á nýjum stað í morgun. Þar er þegar orðið upppantað í alla tíma til jóla.

Meðfylgjandi mynd var tekin í morgun á Rakarastofu Gísla við Stekkjarholt á Akranesi. Þau Gísli S Guðmundsson og Díana Carmen Llorens Izaguirre hárskerar standa þar vaktina og ljóst að mikil vinnutörn er framundan hjá þeim til jóla. Síminn hringdi nær stöðugt meðan blaðamaður staldraði við og fólk kom af götunni og fékk bókaða tíma. Létt stemning og notaleg var hjá þeim og viðskiptavinirnir fegnir að fá snyrtinguna. Meðal annars Jóhann Ársælsson sem þarna er undir skærunum hjá Gísla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir