Útséð er með bóknám í skólanum á þessari önn

Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hefur tilkynnt nemendum sínum að nú séu brostnar vonir um að fá hópa í bóklegum áföngum inn í skólann á þessari haustönn. Nýjar sóttvarnarreglur sem gilda frá og með 18. nóvember til 2. desember útiloki að hægt sé að taka á móti nemendum í staðnámi eins og vonast hafði verið til, þar sem blöndun milli hópa er óheimil, þ.e. nemendur mega ekki fara á milli kennslustofa eða hitta mismunandi hópa innan hvers dags. „Það gengur ekki upp í áfangaskóla,“ skrifar Steinunn Inga.

Kennsla í FVA verður því áfram með sama fyrirkomulagi og verið hefur, þ.e. fjarkennsla í bóknámi en kennt í staðnámi í iðngreinum og á starfsbraut þar sem nemendur eru alltaf með sama hópnum. „Lokapróf í bóklegum áföngum sem eru haldin á námsmatsdögum í desember verða rafræn á þessari önn – ekki í húsi. Sú ákvörðun er tekin með öryggi og heilsu nemenda og kennara að leiðarljósi. Svipað fyrirkomulag er í sambærilegum áfanga- og starfsnámsskólum á landinu öllu. Áfangastjóri sendir út nánari upplýsingar um prófahaldið þegar nær dregur,“ skrifar Steinunn Inga en viðurkennir að vissulega séu þetta vonbrigði, en það skásta í stöðunni sé að setja ekki fleiri í smithættu en brýna nauðsyn ber til þegar svo stutt er eftir af önninni. Skólameistarinn hvetur að endingu nemendur til að gefast ekki upp heldur kýla á restina af önninni af krafti!

Líkar þetta

Fleiri fréttir