Lestur fólks á öllum aldri eykst í Covid

Íslendingar lesa meira í ár af hefðbundnum bókum en í fyrra og hlusta meira á hljóðbækur. Konur lesa meira en karlar, en lestur eykst þó mest milli ára hjá körlum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét framkvæma um viðhorf fólks til lesturs á tímum Covid-19.

Um 36% þeirra sem hlusta að jafnaði á hljóðbækur segjast hlusta meira núna en fyrir faraldurinn og um 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur lesa sömuleiðis meira nú en fyrir faraldurinn. Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,5 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 í lestrarkönnun í fyrra. Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu og sami hópur notar mest bókasöfn. Heldur fleiri lesa nú eingöngu eða oftar á íslensku en öðrum tungumálum miðað við könnun fyrra árs. Um 80% svarenda telur mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.

Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku. Þá kemur fram í könnuninn að mikill meirihluti þjóðarinnar, eða um 76% svarenda, telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir