Úlfar Lúðvíksson hættir sem lögreglustjóri á Vesturlandi

Nýverið var tilkynnt að Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi, hafi verið ráðinn í stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Skessuhorn náði tali af Úlfari í morgun, á síðasta vinnudegi hans sem fráfarandi lögreglustjóri á Vesturlandi. Úlfar hafði í nógu að snúast enda ýmsir endar sem þarf að hnýta, en hann tekur við nýja starfinu næstkomandi mánudag.

Úlfar hefur verið lögreglustjóri á Vesturlandi síðan í ársbyrjun 2015. Hann kom til starfa þegar ný reglugerð og lög um skipan lögreglustjóra- og sýslumannsembætta í landinu tóku gildi sem fólu meðal annars í sér að lögregluliðin á Akranesi, Borgarfirði og Dölum og á Snæfellsnesi sameinuðust í eitt lögreglulið. Hans verkefni var því meðal annars að stýra sameiningunni og byggja upp sameinað lögreglulið umdæmisins. Áður hafði Úlfar meðal annars gegnt embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum og embætti sýslumanns á Ísafirði og Patreksfirði. Jafnframt hefur hann verið formaður Lögreglustjórafélagsins frá 2016.

Aðspurður sagði Úlfar að hann klári embættistíð sína hér á sunnudaginn, 15. nóvember og hefji nýja á Suðurnesjum á mánudaginn. Hann segist ekki vita hver taki við af honum, það sé í höndum ráðuneytisins en einhver verður settur yfir strax enda ekki hægt að lögregluliðið á Vesturlandi sé höfuðlaus her.

Á Suðurnesjum eru fjögur sveitarfélög en á Vesturlandi eru þau tíu. Íbúar Suðurnesja eru um 27.000 en á Vesturland eru þeir um 16.500. Starfsumhverfið í nýju starfi er því að sögn Úlfars örlítið frábrugðið. Úlfar segir nýtt starf leggjast afar vel í sig. Þar séu nýjar áskoranir og sú helsta er alþjóðaflugvöllurinn.

Þegar Úlfar er spurður um hvernig tími hans á Vesturlandi hafi verið svarar hann: „Þetta er búið að vera mjög fínt, það er gott að vera á Vesturlandi.“ Hann vildi koma á framfæri þakklæti fyrir gott og ánægjulegt samstarf við sveitarfélög, sveitarstjórnir og björgunarsveitir í umdæminu auk þess sem hann þakkaði sérstaklega Skessuhorni fyrir samstarfið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir