Telja þörf á nýrri og stærri Breiðafjarðarferju

Stærð og búnaður í Breiðarfjarðarferjunni Baldur hefur sætt aukinni gagnrýni undanfarið. Hagsmunaaðilar leggja áhersla á mikilvægi þess að styrkja þurfi ferjusiglingar um Breiðafjörð með stærri og nýrri ferju til að anna aukinni þörf samfélagsins og jafnframt er vakin athygli á að í ferjunni sé ekki varavél. Í því sambandi var m.a. haft eftir bæjarstjóra Vesturbyggðar á dögunum að það væri eðlileg krafa að í Baldri sé varavél til að grípa inn í ef eitthvað kemur uppá. Í samtali við RÚV segir bæjarstjóri Vesturbyggðar að atvik í sumar, þegar Baldur varð vélvana úti á Breiðafirði, hafa vakið óhug meðal íbúa. Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar tekur í sama streng og leggur áherslu á mikilvægi þess að málið verði tekið föstum tökum. „Engar kröfur eru hins vegar gerðar lagalega til þess að ferjan beri varavél og samkvæmt Vegagerðinni, sem styrkir rekstur ferjunnar, eru engin áform um breytingar þar á,“ segir Jakob.

Sigurður Viggósson, formaður Samtaka atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum, segir Breiðafjarðarferjuna of litla og vakti athygli á því í kvöldfréttum á Stöð2 11. nóvember síðastliðinn að margoft rúmi ferjan ekki þá bíla sem í hann sækja og verður því að skilja bíla og tæki eftir vegna plássleysis. Sigurður segir mikinn vöxt í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum sem endurspeglist í aukinni þörf á þjónustu Baldurs. Á meðan vegakerfið er ekki betra en raun ber vitni er því þörf á nýjum Baldri sem allra fyrst.

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar tók á fundi sínum í gær undir með íbúum og fulltrúum atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum þess efnis að styrkja þurfi ferjusiglingar um Breiðafjörð með stærri og nýrri ferju til að anna aukinni þörf samfélagsins. Bæjarráð lagði einnig áherslu á að samningur við Vegagerðina þurfi að vera til lengri tíma en núverandi samningar gera ráð fyrir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir