RAM er til húsa þar sem Kaffi Sif var áður.

Opnar veitingastað á Hellissandi

Sylvaine Scharapenko hefur ekki látið kórónuveirufaraldur stoppa sig í að elta draumana og stefnir hún á að opna nýjan veitingastað á Hellissandi á næstu dögum. Veitingastaðurinn, sem hefur fengið nafnið RAM, mun vera til húsa þar sem Kaffi Sif var áður. Sylvaine er 52 ára kona, uppalin nærri Lutherstadt Wittenberg, sem er mitt á milli Berlínar og Leipzig í Þýskalandi. Hún flutti ásamt börnunum sínum til Hellissands 1. september síðastliðinn og þótti það tilvalinn staður til að opna veitingastað. „Mig langaði að opna stað þar sem ég gæti bæði búið til list og mat,“ segir Sylvaine og bætir við að á RAM verður ekki bara boðið upp á veitingar heldur mun listin skipa þar stórt hlutverk.

RAM hennar framlag til samfélagsins

Í Þýskalandi hefur Sylvaine mikið unnið með geitaafurðir, búið til osta úr mjólkinni og listaverk úr ullinni. „Það var svona mín leið,“ segir hún. „Mér þykir gott að vinna og ég vil líka alltaf vinna að því að uppfylla drauma mína,“ segir Sylvaine og bætir við að RAM sé einmitt einn af þeim draumum. „Í Þýskalandi upplifði ég hversu fljótt dreifbýlið verður fátækt þegar veitingastöðunum er lokað. Ég upplifði hvernig fólk villist í atvinnuleysi og upplifir sig einskis virði. Með því að opna RAM vil ég leggja mitt að mörkum fyrir samfélagið svo ég geti sjálf einfaldlega tekið þátt í samfélaginu líka,“ segir Sylvaine. „Ég reyni alltaf að vera hugrökk í því sem ég geri,“ bætir hún við.

Enginn ætti að þurfa að vera einn

Aðspurð segir hún að á boðstólnum verði einfaldir þýskir réttir dagsins, brauð og pretzels og heimalagaða linsubaunasúpur. Í desember bætist svo við þýskir jólaréttir auk þess sem Sylvaine ætlar að tileinka sér íslenska matargerð líka. „Því miður er tungumálakunnáttan mín ekki nógu góð svo ég hef þurft að seinka opnuninni því ég á erfitt með að finna út öll þau skilyrði sem ég þarf að uppfylla,“ segir hún en ætlar samt ekki að láta það stoppa sig. En hefur heimsfaraldurinn ekki haft nein áhrif á áform hennar? „Þetta er sannarlega erfiður tími til að opna svona stað, ég geri mér grein fyrir því. Takmarkanirnar eru líka erfiðar, að það geta bara verið tíu á staðnum í einu og við þurfum að loka klukkan níu. Þetta leyfir okkur bara að byrja mjög rólega,“ svarar hún. „En ég hlakka til að búa til stað þar sem fólki getur liðið vel, setið, hitt annað fólk, talað saman og hlegið smá. Enginn ætti að þurfa að vera einn,“ segir Sylvaine.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.