Fjölmiðlafrumvarpi endanlega hafnað af Sjálfstæðisflokknum

Í blaði sínu í dag greinir Morgunblaðið frá því að samkvæmt heimildum þess séu Sjálfstæðismenn búnir að hafna því endanlega að veita fjölmiðlafrumvarpi Lilju D Alfreðsdóttur menntamálaráðherra brautargengi. Frumvarp ráðherrans hefur verið í smíðum allt þetta kjörtímabil en hefur nú í ár setið fast í nefnd Alþingis frá því mælt var fyrir því 16. desember 2019. Málið mun ekki verða afgreitt úr nefnd enda hefur það frá upphafi mætt andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokks. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ræða fulltrúar stjórnarflokkanna nú sín á milli um mögulega aðrar leiðir til að koma til móts við rekstrarvanda einkarekinna fjölmiðla. Nefnt er að í stað styrkja verði gerðar skattabreytingar sem koma eiga til móts við rekstrarvanda þeirra og að allir fjölmiðlar sitji þá við sama borð. Ekkert er hins vegar ákveðið í þeim efnum og málið sagt á viðkvæmu stigi sem lýsir sér best í því að enginn þingmaður ljáir nafn sitt við frétt Morgunblaðsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir