Reykholtskirkja. Ljósm. úr safni/ Guðlaugur Óskarsson.

Samþykkt að sameina Hvanneyrar- og Reykholtsprestaköll

Á kirkjuþingi sem fram fór á laugardaginn var samþykkt tillaga sr. Agnesar M. Sigurðardóttur biskups þess efnis að sameina Hvanneyrar- og Reykholtsprestakall í eitt nýtt prestakall; Reykholtsprestakall. Í greinargerð segir að biskupafundur hafi ákveðið 10. ágúst síðastliðinn að leggja til við kirkjuþing að prestaköllin verði sameinuð og mun einn sóknarprestur þjóna í því eftirleiðis.

Í greinargerð segir jafnframt að í vísitasíu biskups í Hvanneyrarprestakalli í febrúar á þessu ári hafi biskup kynnt þau áform að sóknarprestsstarfið á Hvanneyri yrði ekki auglýst laust til umsóknar þegar sóknarpresturinn, séra Flóki Kristinsson, léti af störfum enda hefði verið horft til þess þegar bætt var við þriðja presti á Akranesi. Árið 2018 var tillaga að sameiningu prestakalla í Vesturlandsprófastdæmi fyrst kynnt en þá sendi biskupafundur sóknarnefndum og sóknarprestum í Borgar-, Hvanneyrar-, Reykholts- og Stafholtsprestaköllum, svo og héraðsnefnd prófastsdæmisins, beiðni um umsagnir vegna fyrirhugaðra sameiningar prestakalla í prófastsdæminu. Umsagnir hafa á þessu ári borist frá aðalsafnaðarfundi Reykholtssóknar, aðalsafnaðarfundi Hvanneyrarsóknar, sóknarnefnd Lundarsókn og sóknarnefnd Bæjarkirkju, og þar hafi ýmist verið bókaðar stuðningsyfirlýsingar eða að bókað var að fólk væri ekki mótfallið sameiningu.

Séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholti verður sjötugur í næsta mánuði og mun láta af embætti sóknarprests um áramót. Starfið verður því auglýst á næstunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir