Mikil verslun á veirutímum en hrun í menningu og veitingasölu

Aukning hefur orðið á innlendri kortaveltu í verslun milli ára í hverjum mánuði frá því í mars síðastliðnum. Í októbermánuði versluðu Íslendingar vörur fyrir 42 milljarða kr. með kortum sínum og jókst veltan um 26% frá sama mánuði í fyrra. Að sama skapi var mikil aukning í netverslun, líkt og í fyrstu bylgjunni, enda ljóst að hertar samkomutakmarkanir þrýstu neytendum á vefinn. Velta íslenskra korta nam 3 milljörðum í netverslun, innanlands. Innlend kortavelta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum nam 18,3 millj. kr. í október og jókst um 31% á milli ára. Jafnframt jókst veltan um 10% á milli mánaða. Líklega er stærsta skýring hækkunarinnar lokun mötuneyta og minni neysla á veitingastöðum en velta síðarnefnda flokksins dróst saman um 21,5% í október. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Fataverslun átti mjög undir högg að sækja í fyrstu bylgju kóvidfaraldursins. Í október jókst innlend kortavelta fataverslana um 2,7% samanborið við fyrra ár. 15% fataverslunar í október fór fram á netinu samanborið við 6% í september og er það til marks um sveigjanleika kaupmanna og neytenda og þess að Íslendingar hafi lært að lifa með veirunni. Íslendingar virðast halda áfram að uppfæra allskyns raftæki, en velta í þeim flokki jókst um tæp 45% milli ára og nam 2,6 milljörðum kr. Þar af nam netverslun flokksins tæplega 436 milljónum kr., jókst hún um 216% milli ára, og stóð að baki 16% allrar verslunar í flokknum.

Á öðrum sviðum voru minni umsvif í október. Sem dæmi um það dróst innlend kortavelta bensínstöðva saman um 13,4% frá október í fyrra. Þetta er í samræmi við minni umferð samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar en hún dróst saman um 31% á hringveginum og um 9,5% á höfuðborgarsvæðinu frá fyrra ári. Þá er um 50% samdráttur í menningarstarfsemi og 21% samdráttur í veitingasölu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira