Fækkar í einangrun en fjölgar í sóttkví

Lögreglan á Vesturlandi var nú rétt í þessu að birta upplýsingar um fjölda smitaðra og í sóttkví á Vesturlandi. Frá því í gær fjölgar verulega þeim sem sæta sóttkví, eru nú 112 á Vesturlandi öllu, en voru 77 í gær. Fjölgunin má einkum rekja á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi þar sem 57 eru nú í sóttkví og fjórir smitaðir af Covid-19. Á Akranesi hefur heldur fækkað í sóttkví og einangrun, en 53 eru þó enn í sóttkví og 13 í einangrun. Á öðrum stöðum á Vesturlandi eru engir í einangrun, en einn er í sóttkví á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Búðardal og annar í Ólafsvík.

Á landinu öllu greindust 13 með kórónaveiruna í gær og voru átta þeirra utan sóttkvíar. Neyðarstig er nú í gildi á Landspítalanum. Þar eru 74 inniliggjandi með sjúkdóminn og sex að auki á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Tveir létust úr Covid-19 á Landspítalanum í gær. Var það fólk á áttræðis- og níræðisaldri. Þar með eru andlát úr kórónaveirufaldrinum hér á landi orðin tuttugu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir