Óskað var eftir níu milljónum lítra en tvær milljónir falboðnar

Landbúnaðarráðuneytinu bárust 209 gild tilboð um kaup og sölu á tilboðsmarkaði fyrir greiðslumark mjólkur 2. nóvember síðastliðinn.  Þetta var jafnframt síðasti markaðurinn á yfirstandandi ári og aðilaskipti greiðslumarks á markaðnum taka gildi frá 1. janúar nk. Hámarksverð greiðslumarks samkvæmt reglugerð frá 30. júlí sl. er þrefalt afurðastöðvaverð, nú 294 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Nær öll tilboð tóku mið af settu hámarksverði. Fjöldi gildra tilboða um sölu á greiðslumarki voru 17, en 192 gild kauptilboð bárust. Eitt kauptilboð var undir jafnvægisverði. Boðnir voru til sölu 1.948.334 lítrar en óskað kaupa á 9.218.000 lítrum. Sérstök úthlutun til nýliða er 5% af sölutilboðum eða 97.399 lítrar. Fjöldi gildra kauptilboða frá nýliðum voru 21. Landbúnaðarráðuneytið mun nú senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram.

Líkar þetta

Fleiri fréttir