Ragnheiður Sigurðardóttir. Skjáskot úr væntanlegum þætti á RUV í kvöld.

Fjallað um skaðleg áhrif myglu í húsnæði á heilsu fólks

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur er á dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld klukkan 20:05. Í þættinum verður fjallað um hvernig mygla og rakaskemmdir í húsum getur haft afdrifaríkar afleiðingar á heilsu fólks. Meðal annars verður í þættinum rætt við Ragnheiði Sigurðardóttur sem býr á Akranesi. Ragnheiður mun í þættinum lýsa því hvernig hún hefur nú misst röddina og á erfitt með hversdagsleg verk og almenn samskipti við annað fólk. Hún glímir við minnisleysi og stöðugan höfuðverk og á jafnvel erfitt með lestur. Fjölmörg fleiri sjúkdómseinkenni hefur hún haft líkt og fjölmargir aðrir sem orðið hafa fyrir svipuðum áhrifum af völdum myglu í húsnæði.

Ragnheiður lýsti í viðtali við Skessuhorn í júní 2019 hvernig hún hafði verið við hestaheilsu þar til framkvæmdir hófust við að laga rakaskemmdir á fyrrum vinnustað hennar. Þá vann hún hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem leigði skrifstofuaðstöðu í húsi Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls í Reykjavík. Það hús og fleiri hafa eins og kunnugt er verið sýkt af myglu og rakaskemmdum og hafa ýmist verið rýmd eða jafnvel rifin. Á höfuðborgarsvæðinu má af handahófi nefna fyrrum hús Íslandsbanka við Kirkjusand, gömlu Heilsuverndarstöðina í Reykjavík sem landlæknir flutti starfsemi sína úr, hluta Landspítalans við Hringbraut og fleiri stofnanir og fyrirtæki. Á Akranesi hefur auk húsnæðis RSK við Stillholt 16-18 meðal annars verið staðfest mygla í tveimur þjónustuhúsum við Dalbraut; húsi Orkuveitunnar og Fjöliðjuhúsinu áður en eldur kom þar upp á síðasta ári. Þá má nefna að mygla var staðfest í grunnskólahúsinu í Borgarnesi fyrir nokkrum árum og ráðist í gríðarlega kostnaðarsamar aðgerðir til að komast fyrir leka og skemmdir. Þannig má fullyrða að raki og mygla í húsnæði finnst víða.

Um áhrif myglu á heilsu fólks

Í ítarlegri umfjöllun sem tengdist myglu og rakaskemmdum í húsum og birt var í Skessuhorni í júní í fyrra sagði m.a.: „En hvers vegna skyldi mygla og rakaskemmdir hafa þessar alvarlegu afleiðingar á fólk og er þetta nýtt fyrirbrigði? Líklega hafa margir heyrt minnst á orðið húsasótt. Öfgakennd tilfelli húsasóttar voru einmitt rakin til raka sem náð hafði að búa um sig í byggingarefnum vegna t.d. lélegrar loftræsingar. Um er að ræða myglugró sem nær við vissar aðstæður, þ.e. vegna raka, galla í byggingu, byggingarefnum eða hönnunar húsa, að búa um sig. Tegundirnar Aspergillus og Penicillum mynda eiturefni sem eru heilsuspillandi mönnum. Sumar Aspergillus tegundir framleiða aflatoxín sem eru best þekktu sveppaeiturefnin en þau eru meðal eitruðustu efna sem til eru og þar að auki krabbameinsvaldandi. Aspergillus tegundir valda ofnæmi og astma en lítil gróin berast auðveldlega niður í lungu (Fungal glossary, Aspergillus, skv. heimasíðu Mycotoxins). Þannig getur byggingarefni einnig leyst frá sér eiturefni sem smjúga út í andrúmsloftið og eitri það. Þetta geta verið gólfdúkar, klæðningarplötur og gifs.

Í myglusýktu húsnæði hefur jafnvel orðið að farga húsgögnun, pappír og öðru sem ekki er hægt að þrífa með sérstökum hætti. Þrátt fyrir að ýmsar staðreyndir liggi fyrir um byggingarefni hefur ekki ein ákveðin skilgreining verið sett fram um húsasótt eða myglu. Hvort heldur vitnað sé í læknisfræði eða verkfræði. „Þó er hægt að sammælast um eftirfarandi skilgreiningu: „Þegar íbúar húss (einn eða fleiri) hafa óæskileg líkamleg eða andleg einkenni/óþægindi sem tengja má dvöl í rými,“ segir á vef Verkís, en þar segir einnig um húsasótt: „Hjá fyrirtæki sem þjáist af húsasótt má búast við að starfsmenn sýni eftirfarandi einkenni: Óútskýrð fjarvera, aukin veikindatíðni, minni afköst og starfsánægja sem getur leitt af sér háa starfsmannaveltu.  Einnig hafa rannsóknir sýnt að of hátt hitastig minnkar afköst verulega.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir