Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara. Ljósm. skjáskot af vef almannavarna.

Eldra fólk þarf að skipuleggja verslun vel og huga að næringu

Upplýsingafundur almannavarna var haldinn í morgun. Fundinum stjórnaði Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn en gestir voru Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, og Anna Steinsen fyrirlesari, sem ræddi um fjarvinnu á tímum farsóttar. Rögnvaldur byrjaði á að fara yfir tölur dagsins en 20 smit greindust innanlands í gær og níu smit á landamærunum.

Skipuleggi verslun vel

Þórunn hvatti aldraða til dáða og til þess að gefast ekki upp á þessum erfiðu tímum sem veiran væri að valda. Hún benti á leiðir fyrir aldraða til þess að létta sér lífið. Hvatti hún til þess að fólk panti vörur á netinu og ef fara þyrfti í búðir að fara þá snemma dags því þá væri minna að gera. Mikilvægt væri að hafa með sér innkaupamiða til þess að stytta tímann í búðinni hverju sinni. Hún nefndi einnig að á heimasíðu Nettó væru mjög góðar leiðbeiningar um hvernig eigi að panta vörur á netinu. Þá ráðlagði hún fólki að geyma þau erindi sem ekki væru bráðnauðsynleg til betri tíma. Hún hvatti fólk til þess að vera duglegt að fara út að hreyfa sig. Stutt væri í að íþróttahús verði opnuð og aldraðir geti haldið áfram að ganga þar þó hált sé úti.

Þórunn minnti á að enn væri margt fólk á lífi sem man eftir kreppunni á Íslandi og skömmtunarseðlum. Þetta ástand tæki enda en á meðan það varir þurfi að hlúa að öldruðu fólki sem oft er einmana. Þá minnti hún á að Rauða krossinn vantar sjálfboðaliða í vinaverkefnið Heimsóknarvinir. Slíkt gæfi góða tilfinningu í hjartað. Hún hvatti fólk til þess að vera duglegt að tileinka sér tæknina, síma og tölvur, til þess að létta sér lífið. Að lokum lagði hún áherslu á að gæta þurfi sérstaklega að næringu aldraðra, hægt væri að fá tilbúna næringardrykki í verslunum sem gott væri að eiga í ísskápnum.

Jákvæðni fóstrar seiglu

Anna Steinsen fyrirlesari hvatti foreldra til þess að vera duglegir að tala við börnin sín og unglinga um þeirra hugðarefni án þess að vera sínöldrandi og leiðinlegur. Hún ræddi um mikilvægi þess að vera jákvæður og gæta að því að horfa ekki of mikið á neikvæðar fréttir heldur að tala meira um jákvæðni og bjartsýni því það fóstri seiglu. Hún hvatti fólk til þess að fara út með börnunum til dæmir að róla saman eða gera eitthvað annað skemmtilegt sem allir hefðu gaman af. Enn fremur minnti Anna fólk á að gleyma ekki að hlæja heldur dansa eins og engin sé morgundagurinn. Að lokum ræddi Anna um hve mikilvægt er að leita sér hjálpar ef þörf krefur hjá fagaðilum eða sjálfboðaliðum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir