Eldfjallasafnið í Stykkishólmi var vígt í maí 2009. Það hefur nú verið boðið til sölu. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi boðið til sölu

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi hefur verið sett á sölu. Frá því greint í frétt í Morgunblaðinu á mánudaginn. Allt sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur í gegnum áratugina safnað að sér fyrir safnið fylgir með í sölunni. Segir hann það mikið áfall að þurfa að selja safnið. Ástæða sölunnar segir hann að í gegnum árin hafi hann rekið safnið í samvinnu við Stykkishólmsbæ en nú sjái bærinn sér ekki fært að halda við húsi safnsins. Það er því ekki annað í stöðunni fyrir Harald en að selja.

Ákvörðun liggur ekki fyrir

Að sögn Jakobs Björgvins Jakobssonar, bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar, liggur ákvörðun af hálfu bæjarins ekki fyrir í málinu. Er málið til umsagnar í safna- og menningarmálanefnd bæjarins og mun Jakob gera bæjarráði grein fyrir stöðu þess á næsta fundi ráðsins. „Stykkishólmsbær áttu fund á dögunum með Haraldi Sigurðssyni og öðrum fulltrúum Vulkan ehf. sem leggur til öll listavert og safngripi Eldfjallasafnsins, en safnið var opnað árið 2009 eftir að bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hafði gert samkomulag við Harald um að setja upp safnið í gamla Samkomuhúsinu. Ríkið hafði samþykkt að kosta flutning á safninu frá USA til landsins árið 2005 eftir að sérfræðingar á vegum ráðuneyta höfðu lagt mat á gildi safnmuna,“ segir Jakob.

Brýnt að huga að endurgerð

Jakob segir tilgang fundarins með forsvarsmönnum Vulkan ehf. hafa verið að ræða stöðu Eldfjallasafnsins, framtíð þess og ástand samkomuhússins sem hýsir safnið. „Fyrir liggur hönnun endurgerðar á Samkomuhúsinu við Aðalgötu 6 í Stykkishólmi m.t.t. ástands og uppruna, þar sem lagt er mat á mikilvægi þess að húsið verði endurgert,“ segir Jakob. Þá bendir hann á að skipulags- og byggingafulltrúi Stykkishólmsbæjar hafi árið 2017 tekið saman greinargerð um ástand hússins þar sem fram kemur að brýnt sé að huga að endurgerð hússins á næstu árum og hefur verið horft til þess að afla styrkja til endurgerðar á húsinu frá Húsafriðunarsjóði. „Það er óhætt að segja að bærinn hafi lagt mikla áherslu á safnið sem sjá má á þeim framlögum sem lögð hafi verið til safnsins til þess að tryggja rekstur þess. Með þessu er ljóst að með því hafi Stykkishólmsbær sýnt í verki að bærinn hafi skilning á gildi safnsins og hversu verðmætt það er,“ segir Jakob.

Líkar þetta

Fleiri fréttir