1. sæti: Dagný Karlsdóttir, Ási. Skemmtileg mynd þar sem fallegir litir fléttast saman. Tignarlegur framtíðar höfðingi sýnir myndatökumanni áhuga. Maður þarf ekki endilega að vera stór til að tekið sé eftir manni, smá mosi og fjallgrös í ullinni til merkis um lífsreynsluna hingað til. Ljósm. Dagný Karlsdóttir.

Birta úrslit í ljósmyndasamkeppni Félags sauðfjárbænda

Félag sauðfjárbænda í Dölum hélt í haust sína árlegu ljósmyndasamkeppni. Þemað í ár samkvæmt facebook síðu félagsins var „hinir margrómuðu hrútar, fullorðnir, miðaldra og/eða ungir.“ Voru félagsmenn hvattir til þess að gramsa í gömlum myndum eða taka nýjar og vera með í skemmtilegri keppni. Jafnframt segir á síðunni: „Þú hefur tvo sólahringa til stefnu, þar sem það er þoka á fjöllum og lélegt skyggni til smalamennsku þá er einmitt rétti tíminn til að sjæna hrútana sína og stilla þeim upp í myndatöku.“ Til stóð að úrslit yrðu gerð kunn á haustfagnaði félagsins sem átti að halda síðustu helgina í október. Vegna veirunnar sem plagar nú heimsbyggðina, fjöldatakmarkana, tveggja metra reglu og algjörrar óvissu um hvernig ástandið yrði var haustfagnaðinum hins vegar frestað svo og sviðaveislu, grillveislu og balli. Þær þrjár sem stóðu uppi sem sigurvegarar voru Dagný Karlsdóttir í Ási í fyrsta sæti, Gyða Lúðvíksdóttir í Brautarholti í öðru sæti og Sigrún Hanna Sigurðardóttir á Lyngbrekku í þriðja sæti. Vinningsmyndirnar má sjá með fréttinni. Fleiri myndir má sjá á facebook síðu félagsins.

3. sæti: Sigrún Hanna Sigurðardóttir, Lyngbrekku. Kollóttir hrútar eru að mínu mati oft vanmetnir. Þessi mynd minnir okkur líka á hve vinalegir hrútar geta verið og hvað börn geta átt falleg sambönd við dýrin. Ég sé ekki betur en að báðir brosi á þessari mynd. Ljósm. Sigrún Hanna Sigurðardóttir.

2. sæti: Gyða Lúðvíksdóttir, Brautarholti. Sumarleg og hlý mynd. Það sést að það væsir ekki um þennan. Bara með því að horfa á myndina finnur maður grasilm og daufa ullarlykt læðast í gegn. Vinalegur hrútur kíkir á myndatökumann og lætur sér ekki bregða. Ljósm. Gyða Lúðvíksdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir