Geirþjófsfjörður. Ljósm. Umhverfisstofnun.

Undirbúa stofnun þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Stofnunin vinnur nú ásamt samstarfshópi að undirbúningi friðlýsingar fyrir svæði sem m.a. nær til Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils, Geirþjófsfjarðar og jarðanna Dynjanda og Hrafnseyrar við Arnarfjörð.

Í september á síðasta ári færði Rarik íslenska ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.

Í byrjun þessa árs hófst undirbúningsvinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun. Í kjölfarið var stofnaður samráðshópur undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins skipaður fulltrúum sveitarfélaganna tveggja, Umhverfisstofnunar, Landgræðslusjóðs sem eiganda jarðarinnar Langa-Botns í Geirþjófsfirði, forsætisráðuneytisins sem umsjónaraðila Hrafnseyrar við Arnarfjörð og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

„Á Íslandi eru fáir þjóðgarðar, ekki síst miðað við hversu stórfenglega náttúru hér er að finna. Þjóðgarðarnir okkar þrír hafa hver sína sérstöðu þar sem náttúruverðmæti, saga og menning tvinnast saman í órjúfanlega heild. Einhvern tímann heyrði ég þá líkingu að þjóðgarðar væru eins og betri stofan; þar eru okkar fínustu djásn sem við viljum vernda, þar njótum við samveru og upplifunar ásamt því að bjóða þangað gestum. Ég sé mikil tækifæri í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, ekki síst fyrir vernd náttúru og menningar okkar, en líka vegna tækifæra til atvinnusköpunar sem felast í þessu aðdráttarafli fyrir landshlutann í heild sinni, enda svæðið einstakt og ólíkt öðrum svæðum þar sem í dag eru þjóðgarðar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira