
Árbók Akurnesinga hlýtur menningarverðlaunin 2020
Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar eru veitt árlega í tengslum við Vökudaga og voru í dag veitt í fjórtánda sinn við heldur óhefðbundnar aðstæður. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum eða félagasamtökum sem hafa skarað fram úr á einhverju sviði menningar í bæjarfélaginu. Menningarverðlaun Akraness 2020 hlýtur Árbók Akurnesinga sem hjónin Margrét Þorvaldsdóttir og Kristján Kristjánsson gefa út.
Árbók Akurnesinga hefur komið út óslitið frá 2001 og er seld í áskrift og lausasölu. Ritið samanstendur að greinum og viðtölum þar sem efnistök eru margvísleg, bæði frá liðnum tímum og nútíma, og tengjast Akranesi eða Akurnesingum með einum eða öðrum hætti. Ár hvert eru meðal efnisatriða fréttaannáll sem unninn er úr fréttasafni Skessuhorns, íþróttaannáll og æviágrip látinna Akurnesinga.