Skessuhorn á leið í póstkassann í sveitinni. Ljósm. úr safni/ skó.

Vilja flytja eftirlit póstmála til Byggðastofnunar

Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til kynningar drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar um frumvarpið til og með 4. nóvember nk. Með tilfærslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Byggðastofnunar hyggjast stjórnvöld tryggja jafnan rétt landsmanna til alþjónustu Íslandspósts, sem lýst er í lögum um póstþjónustu. „Ýmis rök mæla með því að Byggðastofnun taki að sér verkefni póstmála, m.a. við að samhæfa betur byggðasjónarmið og póstmál,“ segir í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

Frumvarpið er hluti af heildaryfirferð á lagaumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Tilgangur frumvarpsins, sem samið var í samvinnu við PFS og Byggðastofnun, er að mæla fyrir um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá PFS til Byggðastofnunar. Markmiðið er að Byggðastofnun hafi sömu heimildir og skyldur og PFS fyrir tilfærsluna og að áfram verði tryggð hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg póstþjónusta um land allt og til og frá landinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir