Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Ljósm. Stjórnarráðið.

Tíu manna samkomubann og íþróttastarf leggst af

Samkomutakmarkanir munu frá miðnætti takmarkast við tíu manns í stað tuttugu áður. Áfram verður tveggja metra reglan við lýði og aukin áhersla er lögð á grímunotkun. Íþróttastarf í landinu leggst af í bili, sundlaugar verða lokaðar, krár og skemmtistaðir sömuleiðis og veitingastaðir þurfa að loka kl. 21:00 á kvöldin. Aðeins verða börn fædd 2015 og síðar undanþegin tveggja metra reglunni, fjöldatakmörkunum og grímuskyldu.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kynnti hertar sóttvarnaraðgerðir á blaðamannafundi núna kl. 13:00. Hertar aðgerðir taka sem fyrr segir gildi á miðnætti og munu gilda til 17. nóvember.

„Þetta eru verulega íþyngjandi skref,“ sagði Svandís á fundinum og vék næst að stöðu heilbrigðiskerfisins. „Landspítalinn, sem er okkar flaggskip í heilbrigðisþjónustunni, er á neyðarstigi, álagið þar er mikið og vaxandi og víða í heilbrigðiskerfinu er mikið álag,“ sagði hún. Hertar aðgerðir sagði hún vera besta kostinn í erfiðri og flókinni stöðu. „Það er ekki ráðrúm til að bíða og sjá til, að vona það besta,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Skólarnir opnir

Skólastarf mun ekki leggjast af, að því er fram kom í máli Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Um helgina verður kynnt reglugerð um það hvernig skólahaldi verður háttað frá og með næstu viku, í samráði við menntakerfið.

Rýmri takmörk í matvöru- og lyfjaverslunum

Gert er ráð fyrir rýmri fjöldatakmarkana í matvöru- og lyfjaverslunum eingöngu. Aðrar verslanir verða að hlýta tíu manna samkomutakmörkunum, að því er fram kom í máli heilbrigðisráðherra.

Þrjátíu manns verður heimilt að koma saman við útfarir, en sóttvarnalæknir lagði til tuttugu manna takmarkanir þar. Er það eina tilvikið þar sem vikið var frá tillögum sóttvarnalæknis, að því er Svandís sagði aðspurð um málið.

Vonandi betri staða eftir 2-3 vikur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við upphaf fundarins að hertar aðgerðir sem gripið hefði verið til fyrir þremur vikum hefðu ekki borið tilætlaðan árangur. Því þyrftu enn að herða aðgerðir. Samfélagssmit væru töluvert útbreidd og komið hefðu upp stór hópsmit sem mikilvægt væri að ná utan um.

Hún kvaðst vonast til þess að hertar aðgerðir nú myndu duga til þess að hægt yrði að slaka á tökunum á aðventunni og þá gæti þjóðin horft til bjartari tíma. Svandís tók undir þetta í sinni framsögu. Ef allt gengi eftir væru allar líkur á því að önnur og betri staða blasi við eftir tvær til þrjár vikur og vonaðist hún til að eftir þann tíma verði hægt að slaka aftur á takmörkunum. „Reglurnar eru einfaldar þó þær séu erfiðar, við þurfum að tileinka okkur þær og hafa hugfast alla daga hvers vegna þær eru mikilvægar, vegna þess að því betur sem við fylgjum þeim því skemur þurfum við að fylgja þeim,“ sagði Svandís.

Helstu takmarkanir

Hér að neðan fer listi yfir helstu takmarkanir sem gripið var til frá og með miðnætti á föstudag, en þær ná allar til landsins alls:

Tíu manna fjöldatakmörk eru meginregla, en heimild fyrir 30 manns í útförum en aðeins tíu í erfidrykkjum.
50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðis.
Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
Tíu manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
Íþróttir óheimilar.
Sundlaugum lokað.
Sviðslistir eru óheimilar.
Starfsemi sem krefst nálægðar, s.s. á hárgreiðslustofum og nuddstofum, er óheimil.
Krám og skemmtistöðum lokað.
Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21:00.
Grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Börn fædd 2015 og síðar eru undanþegin tveggja metrareglu, fjöldatakmörkum og grímuskyldu, en áður gilti þessi regla um börn fædd 2005 og síðar.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast, svo sem heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónustu. Þá getur ráðherra sömuleiðis veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra kappleikja.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir