Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri, hér við vígslu á nýju skipi FISK í Grundarfirði á síðasta ári. Ljósm. úr safni/ tfk.

Kaupfélag Skagfirðinga lætur gott af sér leiða

Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess í matvælaframleiðslu hafa ákveðið að gefa fólki í erfiðleikum matvöru, sem svarar til 40.000 máltíða, fram til jóla. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag. Vitnað er til Ásgerðar Jónu Flosadóttur formanns Fjölskylduhjálpar sem segir gjöfina algjöra himnasendingu fyrir bágstadda.

Í tilkynningu segir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS: „Þetta er viðleitni okkar til þess að aðstoða fólk sem á í tímabundnum erfiðleikum vegna kórónuveirunnar og afleiðinga hennar. Það kreppir víða að í þjóðfélaginu þessa dagana, en það á enginn að líða neyð vegna þess. Það er mikilvægt að við stöndum saman í þeirri baráttu.“ Matargjöfin sem um ræðir verður hágæta kjöt og fiskur, mjólkurvörur og fleira.

Ásgerður Jóna segir að þörfin fyrir aðstoð til bágstaddra sé gríðarlega mikil og aukist dag frá degi. „Þetta er stærsta matargjöf allra tíma og hún gæti ekki komið á betri tíma,“ segir Ásgerður Jóna í Morgunblaðinu og bætir við að þörfin hafi aldrei verið meiri, ekki einu sinni í hruninu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir