Hótel Sögu lokað nú um mánaðamótin

Hótel Sögu verður lokað 1. nóvember vegna neikvæðra áhrifa Covid-19 faraldursins á ferðaþjónustufyrirtæki. Hótelið er sem kunnugt er í eigu Bændasamtaka Íslands, sem eru til húsa á þriðju hæð hússins eins og fleiri samtök landbúnaðarins. Lokun hótelsins mun ekki hafa áhrif á aðra starfsemi í húsinu.

Í tilkynningu á vef Bændasamtakanna segir að tekjusamdráttur hótelsins vegna faraldursins hafi verið gífurlegur og mikil óvisssa hvernig rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu þróist í náinni framtíð. Fjárhagsleg endurskipulagning standi yfir og að stjórnendur þess hafi verið nauðbeygðir til að grípa til lokunar, að minnsta kosti að sinni, á meðan ekki sér fyrir endann á faraldrinum og engin augljós merki þess að ferðamönnum fjölgi á næstu vikum og mánuðum.

„Síðustu sóttvarnaraðgerðir gera það að verkum að það er ekki lengur rekstrargrundvöllur til að halda starfseminni gangandi. Hótel Saga er stórt hótel og það þarf að lágmarki 15 til 20 starfsmenn til að halda uppi allra nauðsynlegustu þjónustu og tekjumöguleikar eins og staðan er í dag nánast engir,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstjóri í tilkynningu. „Þannig að ákvörðunin um að loka er tekin af illri nauðsyn þrátt fyrir að í september hafi verði stefnt að því að hafa opið til áramóta eða þangað til að fundin hafi verið lausn við endurskipulagningu rekstursins,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir