Grafið fyrir reiðhöll. Fjær er félagsheimilið á Æðarodda. Ljósm. mm.

Byrjað að grafa grunn undir reiðhöll á Æðarodda

Í morgun hófu starfsmenn Snóks ehf. jarðvegsskipti undir væntanlega reiðhöll hestamannafélagsins Dreyra á Æðarodda við Akranes. Þar verður byggt 1.250 fm. hús sem verður 25 metrar á breidd og 50 metra langt. Auk hestamanna koma sveitarfélögin; Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit, að framkvæmdum. BM Vallá/Smellinn tekur við jarðvegsskiptum grunni og reisir sökkla en samið hefur verið við Kára Arnórsson ehf. um að reisa burðarvirki reiðhallarinnar sem verður úr límtré.

Verkefni þetta hefur verið draumur hestamanna um árabil. Hreyfing komst á málið í maíbyrjun 2018 þegar skrifað var undir samning um byggingu reiðhallarinnar og vonir stóðu til að hægt yrði að hefja framkvæmdir síðar sama ár. Það tafðist hins vegar vegna flókins eignarhalds á lóðinni. Um veturinn var hins vegar gengið frá kaupum á landinu og fyrsta skóflustungan að reiðhöll á Æðarodda var tekin við hátíðlega athöfn 1. maí 2019. Þá var vonast til að hægt yrði að vígja húsið ári síðar, í byrjun maí nú í vor. Verkið mun því tefjast um eitt ár miðað við þær fyrirætlanir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir