Bræðurnir Atli Snær og Sigurður Árni. Ljósm. glh.

Selja pungvax og skeggolíur í nýrri vefverslun

Bræðurnir Sigurður Árni og Atli Snær Júlíussynir reka saman vefverslunina Herrahellirinn í Borgarnesi þar sem seldar eru hágæða herrasnyrtivörur, eins og segir á vefsíðu fyrirtækisins. Þar má finna allt frá skeggolíum, sjampói fyrir hárið og meira að segja pungvax svo fátt eitt sé nefnt. Nú hafa þeir bræður verið í rekstri í um þrjár vikur og segja þeir viðtökurnar hafa verið vonum framar. „Það er búið að ganga rosalega vel og sumar vörulínurnar orðið uppseldar,“ svara þeir bræður ánægðir með stöðuna. En hvernig kom þetta allt saman til? „Ég var eitthvað að skoða á netinu í fyrra og rekst á þessar Dick Johnson vörur frá Finnlandi, sem við erum núna að selja. Ég fann þær á danskri síðu og mér leist virkilega vel á þær, fór og skoðaði hvort þessar vörur fengjust á Íslandi. Svo var ekki,“ svarar Sigurður og segir jafnframt að hann hafi fyrst og fremst fílað lúkkið á vörunum því ekki hafði hann prófað vörurnar sjálfur. „Ég hafði þá samband við forsvarsmenn Dick Johnson í Finnlandi og athugaði hvort ég mætti selja vörurnar þeirra á Íslandi,“ bætir hann léttur við. „Þeir tóku vel í það. Í kjölfarið spyr ég Atla bróður hvort hann vilji vera með mér í þessu og hann slær til,“ bætir Sigurður ánægður við og Atli tekur undir með bróður sínum. „Þetta var auðvitað svolítil áhætta. Hvorugur okkar hafði prófað vörurnar en blessunarlega eru þetta góðar vörur.“

Í dag er Herrahellirinn dreifingaraðili Dick Johnson á Íslandi en ásamt þeim vörum þá selur Herrahellirinn vörur frá Dapper Dan og Golden Beards.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir