Ósátt með stöðuna í viðskiptum með greiðslumark

Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal, er ósátt við þá stöðu sem komin er upp um viðskipti með greiðslumark mjólkur. Telur hún að forsvarsmenn bænda hafi hvorki haft umboð til að semja um það verð sem nú er búið að binda í greinina né heldur þann tíma sem um var samið í viðræðum við ríkið. Hefur hún sent stjórnum Landssamtaka kúabænda og Bændasamtaka Íslands fyrirspurn vegna þessa.

Guðrún byrjar á að rifja upp að aðalfundur Landssamtaka kúabænda 22.-23. mars 2019 hafi samþykkt að beina því til samninganefndar bænda við endurskoðun búvörusamninga að viðskipti með greiðslumark skuli eiga sér stað í gegnum miðlægan markað í umsjón opinbers aðila. Markaðurinn skyldi byggjast upp á jafnvægisverði en þó að hámarki því sem næmi tvöföldu lágmarksafurðastöðvaverði innan greiðslumarks. Enn fremur að hver aðili gæti aðeins boðið í 150 þús. lítra á ári og að nýliðar fengju forgang á 25% viðskipti með greiðslumark.

Skrif forsvarsmanna bænda

Næst rifjar Guðrún upp skrif Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur, varaformanns LK og Arnars Árnasonar formanns. Herdís skrifaði leiðara á vef LK 7. ágúst þar sem segir að við síðustu endurskoðun hafi fulltrúar LK barist fyrir hámarksverði á kvótamarkaði og að það myndi miðast við tvöfalt afurðastöðvaverð hverju sinni. Fulltrúar bænda í framkvæmdanefnd búvörusamninga hefðu einnig lagt til tvöfalt afurðastöðvaverð og að sú ákvörðun skyldi gilda út samningstímann til ársins 2026, en að það hafi ekki náðst.

Í grein eftir formann og varaformann LK, sem birtist í á vef Bændablaðsins 1. september síðastliðinn, segir svo meðal annars að bændur hafi gert kröfu um hámarksverð á kvótamarkaði sem næmi tvöföldu afurðastöðvaverði og vísa til ályktunar LK frá 2019. Síðar í sömu grein segja þau hins vegar að ef litið sé til verðþróunar á greiðslumarki frá upphafi markaðsfyrirkomulagsins, lækkunar á verði fyrir umframmjólk og þess þrýstings sem kominn væri á viðskiptin, teldu þau að ásættanlegt hámarksverð yrði sett sem þrefalt afurðastöðvaverð hvers tíma, enda um hámarksverð að ræða en ekki fast verð.

Fundargerð segir aðra sögu

„Eftir þessar útlistanir forsvarsmanna LK var vægast sagt mjög sérkennilegt að lesa fundargerð 442. fundar framkvæmdanefndar búvörusamninga sem haldinn var 22. júlí 2020, þar sem hámarksverð á greiðslumarki mjólkur var til umræðu,“ segir Guðrún í fyrirspurn sinni og vísar til fundargerðarinnar. Þar kemur fram að tekin hafi verið fyrir sameiginleg tillaga Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda um hámarksverð greiðslumarks. Þar er lagt til að sett verði hámarksverð á markaði sem nemur þreföldu lágmarksverði mjólkur til bænda, eða 294 kr./ltr. Í rökstuðningi með tillögunni segir að ljóst sé að bændur vilji hafa hámarksverð á markaði og skipti stöðugleikinn þar mestu máli svo hægt sé að vinna rekstraráætlanir. Með vísan til þess rökustuðnings var samþykkt að leggja til við ráðherra að sett verði 294 kr./ltr. lágmark á jafnvægisverð markaðar með greiðslumark mjólkur frá og með markaðnum 1. september og til 2023.

Gegn vilja aðalfundar

Guðrún spyr hvernig forsvarsmenn kúabænda hafi getað talið ásættanlegt að að hámarksverð yrði sett sem þrefalt afurðastöðvaverð hvers tíma og gert tillögu um það á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga, þegar aðalfundur LK hafði ályktað að hámarksverðið yrði tvöfalt afurðastöðvaverð. „Hvaðan fenguð þið umboð til þessarar hækkunar?“ spyr Guðrún í fyrirspurn sinni. Hún segir að þarna hafi verið samið um verulega hækkun á útgjöldum kúabænda sem þurfa eða vilja bæta við sig greiðslumarki og gegn þeirra vilja. Enn fremur segir hún að í ljósi þess hafi verið í hæsta máta einkennilegt að festa verðið til þriggja ára. „Stöðugleiki skiptir jú miklu máli en 50% hækkun á verði greiðslumarks getur seint kallast stöðugleiki, sem til viðbótar heftir greinina í að takast á við það rekstrarumhverfi sem henni er ætlað að mæta og forsvarsmönnum samtaka bænda er ætlað að verja,“ segir Guðrún og spyr hvernig þetta geti verið til þess fallið að auka samkeppnishæfni greinarinnar og hvaða hagsmuni sé verið að verja.

Enn fremur telur Guðrún varaformann samtakanna ekki hafa sagt satt og rétt frá í grein sinni um hámarksverð á vef LK og vill fá að vita hverju það sætir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir