Páll H. Halldórsson og Einar Guðmundsson, stjórnarmenn í Brautinni, taka við styrknum úr hendi Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, formanns stjórnar Minningarsjóðs Lovísu Hrundar. Ljósm. Brautin/ Guðmundur Karl Einarsson.

Minningarsjóður styrkir endurnýjun Veltibílsins

Minningarsjóður Lovísu Hrundar afhenti á föstudag tveggja milljóna króna styrk til Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, vegna endurnýjunar á Veltibílnum. Félagið hefur undanfarin 25 ár notað Veltibílinn til að vekja athygli landsmanna á mikilvægi bílbelta og hafa 362 þúsund manns farið hring í bílnum á þeim tíma, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Brautarinnar. Baráttan fyrir umferðaröryggi hefur verið hornsteinn í starfsemi félagsins frá stofnun þess árið 1953. Fram kemur í tilkynningunni að Veltibíllinn hafi verið það tæki sem best hafi nýst til að koma á almennri bílbeltanotkun landsmanna.

„Við erum gríðarlega þakklát fyrir stuðning Minningarsjóðs Lovísu Hrundar við endurnýjun á Veltibílnum. Félagið byggir á sjálfboðaliðum og án stuðnings sem þessa væri einfaldlega ekki hægt að keyra svona öflugt forvarnarverkefni sem Veltibíllinn er,“ segir Páll H. Halldórsson, stjórnarformaður Brautarinnar, í tilkynningunni.

Það var Jóhannes Kr. Kristjánsson, formaður stjórnar Minningarsjóðs Lovísu Hrundar, sem afhenti forsvarsmönnum Brautarinnar styrkinn á föstudag. Hann segir verkefni Brautarinnar mikilvæg í baráttunni gegn ölvunarakstri og fyrir umferðaröryggi almennt. „Stjórn Minningarsjóðs Lovísu Hrundar hefur mikla trú á forvarnarverkefnum Brautarinnar gegn ölvunarakstri og fannst mikilvægt að styðja sérstaklega endurnýjun á Veltibílnum sem þúsundir barna um allt land hafa farið í og prófað,“ segir Jóhannes og óskar Brautinni velfarnaðar í fornvarnarstarfi sínu í framtíðinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir