Jaclyn og Benedikt ásamt Týru í Galleríi Bjarna Þórs. Ljósm. frg

Málverkasýningin Strand í Galleríi Bjarna Þórs

Jaclyn Poucel Árnason er bandarísk listakona, fædd og uppalin í Lancaster í Pennsylvaníu. Hún býr nú á Akranesi með eiginmanni sínum, Benedikt Val Árnasyni. Benedikt er Skagamaður en þau kynntust árið 2016 en Jaclyn lék þá og leikur í dag knattspyrnu með ÍA. Hún er sjálfmenntuð listakona og með gráðu í listasögu frá háskólanum í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Jaclyn opnar síðdegis í dag málverkasýningu í Galleríi Bjarna Þórs að Kirkjubraut 1. Sýningin nefnist Strand og er hluti af Vökudögum á Akranesi. Áhersla hennar eru abstrakt verk sem innblásin eru af tengingu hennar við hafið, ferðalög og náttúruna. Á Facebook síðu sýningarinnar segir m.a: “Ég hef alltaf verið heilluð af þessum stöðum þar sem sjórinn mætir landinu, þar sem sjávarföll breyta og afhjúpa hluta sem einu sinni hafa verið faldir, þessir þræðir. Ég fann mig knúna til að fanga þessa staði, sérstaklega eftir að hafa lært meira um tungumálið sem leitast við að skilgreina þá. Ég trúi því að þessir staðir, þessir þræðir, séu hlaðnir náttúrulegum krafti sem verði alltaf ráðgáta, rétt eins og hafið og lífið sjálft.”

Á þessari sýningu leitaðist ég við að búa til málverk sem tákna á óhlutbundinn hátt þessa staði við strendur Íslands, Írlands og Skotlands og skilgreina túlkun mína á orðinu „strand“ og óáþreifanlegar og djúpar tilfinningar sem kallaðar eru fram með því að verða vitni að þeim.”

Gestir á sýningunni eru beðnir um að virða sóttvarnarreglur í hvívetna, nota grímu og virða tveggja metra regluna. Fjórir gestir geta verið inni í rýminu auk þeirra hjóna og eigenda gallerísins.

Sýningin verður opnuð í dag, 29. október, kl. 18:00. Um helgina verður sýningin opin frá 12:00 – 16:00. Sýningin verður opin að minnsta kosti til 8. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir