Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósm. úr safni.

Boðar hertar sóttvarnaraðgerðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun leggja til við heilbrigðisráðherra að núverandi sóttvarnaraðgerðir verði hertar. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna nú kl. 11:00. Í vinnslu er minnisblað þess efnis til ráðherra. Útfærsla einstakra tillagna liggur ekki endanlega fyrir, að sögn Þórólfs, og kvaðst hann því ekki reiðubúinn að ræða útfærslu einstakra tillagna að svo stöddu, en sagði að minnisblaðið yrði tilbúið síðar í dag.

Þórólfur sagði að ef litið væri til kúrvu svokallaðra samfélagssmita þá hefði hún verið á uppleið undanfarna daga. Auk stórra smita sem komið hafa upp undanfarið sagði Þórólfur að einnig hefðu komið upp litlar hópsýkingar víða. Innanlandssmit hefðu verið nokkuð stöðug, en vonir hefðu verið bundnar að samfélagssmitum myndi fækka. Þau hefðu þvert á móti færst í vöxt undanfarna daga. „Það er ákveðið áhyggjuefni,“ sagði Þórólfur. „Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga og tillit tekið til alvarlegrar stöðu Landspítalans er einsýnt að það er ekki svigrúm fyrir tilslakanir á aðgerðum innanlands,“ sagði hann.

Af þessum sökum mun hann leggja til hertar aðgerðir, sem hann sér fyrir sér að þyrftu ekki að gilda í lengri tíma en tvær til þrjár vikur, en í framhaldi þess væri hægt að slaka á þeim, að því gefnu að allt gangi vel.

Að lokum hnykkti Þórólfur á því sem margoft hefur komið fram; að allir gæti vel að því að mæta ekki veikir í vinnuna, bæði starfsfólk og atvinnurekendur, allir gæti vel að einstaklingsbundnum sýkingavörnum og forðist hvers konar óþarfa hópamyndun. „Það er lykillinn að því að ná tökum á þessum faraldri. Ég vil minna alla á að við eigum langt í land með að ná góðum tökum á þessari veiru. Við þurfum áfram að standa saman og standa okkur vel og gera það sem við þurfum aðgera þar til gott og öruggt bóluefni kemur á markaðinn,“ sagði sóttvarnalæknir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir