Úr uppsjáfarfiskvinnslu Eskju á Eskifirði sem Skaginn 3X setti upp fyrir nokkrum árum. Ljósm. úr safni.

Baader kaupir meirihluta í Skaganum 3X

Gengið hefur verið frá samningi um kaup þýska stórfyrirtækisins Baader á meirihluta hlutafjár í Skaganum 3X, sem m.a. hefur starfsstöðvar sínar á Akranesi og Ísafirði. Kaupin hafa átt sér talsverðan aðdraganda. Í tilkynningu frá Ingólfi Árnasyni forstjóra til starfsmanna sinna nú í morgun, sem Skessuhorn hefur undir höndum, kemur fram að upphaflega megi rekja söluna til þeirrar ákvörðunar stjórnar Skagans 3X að leita eftir öflugu samstarfsfyrirtæki sem stutt gæti við frekari vöxt með það að markmiði að koma lausnum Skagans 3X betur á framfæri í mun öflugra markaðs- og dreifikerfi. Ekkert kemur því fram um að til standi að draga úr starfsemi fyrirtækisins hér á landi, heldur þvert á móti. „Eins og við öll vitum liggur ástríða okkar að stórum hluta í þróun nýrra lausna. Samkomulag þetta opnar okkur aðgang að stærsta sölukerfi í sjávarútvegi og fagna ég því mjög,“ segir Ingólfur í tilkynningu til starfsmanna. Samanlagt munu starfsmenn Baader og Skagans 3X við kaupin verða um 1.500 í upphafi, sem hafa starfsstöðvar víðs vegar um heiminn.

Í sameiginlegri tilkynningu frá fyrirtækjum í dag kemur fram að kaupin séu háð venjubundnum fyrirvörum um samþykki opinberra aðila, en ráðgert er að þeim fyrirvörum verði aflétt í ársbyrjun 2021. „Samstarf þetta er okkur mikið gleðiefni og ánægjulegt að geta í sameiningu boðið viðskiptavinum okkar heildstætt vöruframboð af framúrskarandi lausnum við vinnslu sjávarafurða,“ segir í tilkynningu frá Baader. Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X, segir í sömu tilkynningu: „Með því að samtvinna áratuga sköpun, þekkingu og reynslu Baader við okkar sérþekkingu byggða á samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg munum við efla þróun og nýsköpun til muna,“ segir hann.

Þá kemur fram í tilkynningu að Ingólfur Árnason mun áfram gegna starfi forstjóra Skagans 3X og njóta liðsinnis núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins. Að uppfylltum fyrirvörum samningsins mun sölu- og markaðsstarf Skagans 3X verða samþætt hinu öfluga og víðfeðma sölukerfi Baader. „Þar til fyrirvörum samnings verður aflétt mun núverandi starfsemi fyrirtækjanna haldast óbreytt,“ segir í tilkynningunni.

Fiskur að renna í gegnum Baader vél.

Þekktasta vörumerkið

Fyrirtækin Baader og Skaginn 3X eiga bæði djúpar rætur í þróun tæknibúnaðar fyrir sjávarútveginn. „Reynsla og þekking okkar ásamt nálægð við öflugan sjávarútveg er lykill að sköpun nýrra lausna í matvælaiðnaði. Markmið okkar er að nýta tækifærin er skapast í þessu samstarfi til þess að efla okkur á öllum sviðum starfseminnar innanlands og utan,“ segir Ingólfur.

Baader er eitt þekktasta vörumerki í heimi í framleiðslu vinnslulausna í matvælaiðnaði og byggir á yfir 100 ára sögu, stofnað árið 1919. Baader er markaðsleiðandi við þróun og framleiðslu heildstæðra lausna sem tryggja nákvæmni og skilvirkni á öllum stigum framleiðslu allt frá meðhöndlun hráefnis til fullbúinnar matvöru. „Með sérfræðiþekkingu starfsmanna fyrirtækisins og öflugri gagnavinnslu er vöru fylgt í gegnum virðiskeðjuna. Með nánu samstarfi okkar við viðskiptavini og aðra samstarfsaðila hefur okkur tekist að stíga stór skref í átt að aukinni skilvirkni, rekjanleika, gagnsæi, arðsemi og sjálfbærni,“ segir í kynningu frá fyrirtækinu. Baader er fjölskyldufyrirtæki og er forstjóri þess og eini eigandi Petra Baader. Frekari upplýsingar um Baader má nálgast á heimasíðu fyrirtækisins www.baader.com.

Skaginn 3X

Eins og lesendur þekkja þróar og framleiðir Skaginn 3X hátæknibúnað fyrir matvælaiðnað víðs vegar um heiminn með áherslu á heildstæðar lausnir til lands og sjávar. Starfsstöðvar fyrirtækisins hér á landi eru m.a. á Akranesi og Ísafirði. Fyrirtækið leggur áherslu á tækni sem viðheldur gæðum afurða og hefur til þess þróað og einkaleyfavarið einstakar kæli- og frystilausnir. Lausnir sem byggja á sjálfvirkum lausnum með skilvirkni og sjálfbærni að leiðarljósi. Höfuðstöðvar Skagans 3X eru á Íslandi en dótturfélög og samstarfaðilar fyrirtækisins eru staðsettir víðsvegar um heiminn.

Sjá nánar hér

Líkar þetta

Fleiri fréttir